Íslenska/Icelandic 

 

Nemendur í Alþjóðaskólanum fá íslenskukennslu við hæfi ýmist sem móðurmál eða sem annað tungumál í samræmi við Aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011 og 2013. Að auki fá þeir nemendur sem eru tímabundið á Íslandi innsýn í íslenskt þjóðlíf og tungu.   

Til að mæta þörfum nemenda okkar sem best er rík áhersla lögð á sveigjanleika og að byggja upp sjálfstraust og þol nemandans í náminu. Námsmarkmiðið er ávallt í forgrunni en við leitum ýmissa fanga og leiða til að aðstoða nemendur til að ná þeim og erum óhrædd við að endurmeta og prófa nýja hluti.    

Íslenska sem Móðurmál (Icelandic as a Mother-tongue)

Nemendur sem hafa íslensku sem móðurmál sem og aðrir nemendur sem stunda nám á tvítyngdu námsbrautinni fá íslenskukennslu sem móðurmál. Í kennslunni er fylgt eftir námsmarkmiðum og tímafjölda íslensku námskránnar. Auk þess er litið svo á kennsla í tungumálinu einskorðist ekki við kennslustundir sem úthlutað er fyrir íslenskunám og því eru viðeigandi námsmarkmið íslenskunnar sett inn í flestar kennslugreinar.  

Þarfir einstaklinga og hópa geta verið mismunandi. Reynt er af fremsta megni að tengja tungumálakennsluna áhugasviði nemenda og mikill hluti kennslunnar er settur upp í þemu. Dæmi um námsgögn eru bækur og námsvefir frá Námsgagnastofnun, ýmis verkefni af Skólavefnum, spil, rafræn verkefni og leikir, sem og önnur verkefni búin til af kennara. 

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá stuðning. Skipulag stuðnings tekur mið af aldri, þroska og þörfum nemenda. Stuðningurinn getur ýmist verið inn í bekk, fyrir litla hópa eða einstaka einstaklinga.

Til að fylgast sem best með námsframvindu er margvíslegt námsmat notað. Dæmi um námsmat og skimanir eru:

 

 • Lesskimun (Leið til læsis)

 • Hraðlestrarpróf

 • Lesskilningspróf (Orðarún og fl.)

 • Stafsetningar og málfræðipróf

 • Símat á vinnubrögðum, virkni og frágangi nemenda

 • Námsmöppur

 • Sjálfsmat og jafningjamat

 • Nemendaviðtöl

 • Foreldraviðtöl

 • Samræmd próf

Íslensk tunga og menning

Nemendur sem stunda nám á ensku námsbrautinni geta valið námsgreinina Íslensk tunga og menning í stað spænsku.   

Markmið kennslunnnar er: 

 • að nemendur læri grunnorð og hugtök í íslensku

 • að nemendur fái áhuga á að læra annað tungumál

 • að nemendur fái tækifæri til að öðlast næga færni til að geta haft samskipti á íslensku

 • að nemendur kynnist þjóðlífi Íslendinga

 • að nemendur fái að fræðast um íslenska þætti í menningunni sem tengjast þeirra áhugasviði

 

Nemendur eru kynntir fyrir hefðum og venjum sem viðhafðar eru á Íslandi og sérstöðu landsins. Jafnframt er leitað eftir áhugasviði nemenda (hvað vilja þeir vita meira um) og fjallað sérstaklega um þá þætti.   

Viltu skoða nánar námsskránna í íslensku fyrir grunnskóla frá Mennta og Menningarmálaráðuneytinu!